Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lög, reglugerðir og leyfisveitingar 

 

Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Garðabæjar 

 
1. gr. 
Skólinn heitir Tónlistarskóli Garðabæjar. Skólinn er eign Garðabæjar og fer bæjarstjórn Garðabæjar með yfirstjórn hans. Skólinn starfar skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985, með síðari breytingum. Skólinn er með fast aðsetur að Kirkjulundi 11 og í grunnskólanum á Álftanesi auk þessa að sinna hljóðfærakennslu í grunnskólum sveitarfélagsins. 
 
2. gr. 
Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu, stuðla að iðkun tónlistar og vinna við eflingu tónlistarlífs í Garðabæ. 
Þessum markmiðum hyggst skólinn meðal annars ná með því: 
-  Að halda upp kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem nemendum er gefinn kostur á að stunda nám eftir því sem aðstæður leyfa og í samvinnu við aðra skóla og uppeldisstofnanir um þessa fræðslu 
-  Að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargleði 
-  Að búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist 
-  Að gera fullorðnum Garðbæingum kleift að auðga tómstundir sínar með tónlistariðkun, eftir því sem kostur er 
-  Að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og samsöng 
-  Að skólinn eigi hljóðfæri sem verði leigð nemendum eftir því sem kostur er 
 
3. gr. 
Bæjarstjórn Garðabæjar skal kjósa 5 menn í skólanefnd Tónlistarskóla Garðabæjar og jafn marga til vara til fjögurra ára í senn að loknum hverjum reglulegum sveitarstjórnarkosningum. Jafnframt skal bæjarstjórn kjósa formann og varaformann. Á fyrsta fundi skólanefndar skal kosinn ritari sem færa skal fundargerðir í gerðabók. Afrit af fundargerðum skulu send til bæjarstjórnar. Allir þeir sem hafa seturétt á fundi skólanefndar svo og varamenn þeirra skulu fá send afrit af fundargerðum skólanefndar. 
 
4. gr. 
Skólanefnd hefur umsjón með málefnum skólans í umboði bæjarstjórnar. Formaður nefndarinnar boðar til fundar með dagskrá svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða til fundar ef tveir nefndarmenn, skólastjóri eða kennarafundur æskir þess. Skólastjóri eða staðgengill hans situr skólanefndarfundi. 
 
5. gr. 
Bæjarstjórn ræður skólastjóra að fenginni umsögn skólanefndar. Skólastjóri í umboði bæjarstjóra ræður aðra starfsmenn skólans. Við ráðningu skal þess ávallt gætt að bæjarstjórn hafi samþykkt stöðuheimildir. 
 
6. gr. 
Skólastjóri hefur forystu um að móta listræna og faglega stefnu skólans. Skólastjóri fer með daglega stjórnun. Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa og skal hann stjórna skólanum í samræmi við samþykkta kennslu- og fjárhagsáætlun. Hann skal framfylgja samþykktum skólanefndar, enda samrýmist þær fjárhagsáætlun skólans. Skólastjóri ráðstafar húsnæði skólans gagnvart starfsmönnum og nemendum svo og aðilum utan skólans. 
Skólastjóri skal skila vinnuskýrslum starfsmanna til starfsmannahalds bæjarins og árita reikninga til greiðslu. 
 
7. gr. 
Skólastjóri skal í október ár hvert gera kennsluáætlun næsta skólaárs í samráði við forstöðumanna fræðslu- og menningarsviðs. Skólastjóri skal semja fjárhagsáætlun skólans og kynna skólanefnd. 
 
8. gr. 
Aðstoðarskólastjóri og deildarstjórar eru skólastjóra til aðstoðar og starfa að stjórn skólans í umboði hans. Aðstoðarskólastjóri skal vera staðgengill skólastjóra í fjarveru hans. 
 
9. gr. 
Rekstur skólans skal greiðast með fjárveitingum á fjárhagsáætlun Garðabæjar og skólagjöldum nemenda. Bæjarskrifstofur Garðabæjar annast greiðslur launa og rekstrarreikninga, svo og bókhald Tónlistarskóla Garðabæjar. 
 
10. gr. 
Skóladagar nemenda skulu verða á tímabilinu 20. ágúst til 5. júní og skal starfstíminn einkum kennslutími, aðlagaður starfstíma grunnskóla. 
 
11. gr. 
Að jafnaði skal ekki krafist inntökuprófs í skólann. Skólinn áskilur sér rétt til að víkja nemanda úr skólanum ef hann hefur ekki sinnt náminu um lengri tíma eða gerst brotlegur við reglur skólans og ekki látið segjast við áminningu. 
 
12. gr. 
Skólagjöld eru ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum skólanefndar. Skólagjöld skal greiða í upphafi skólaárs fyrir allt skólaárið og geta nemendur einungis fengið skólagjöld endurgreidd ef þeir hætta námi vegna veikinda eða brottflutnings. 
 
13. gr. 
Nemendur skulu taka þátt í tónleikum skólans eftir tilmælum skólastjóra eða kennara. Ennfremur ber nemendum að taka þátt í samleik og samsöng, sé þess óskað. 
 
Reglugerð þessi er samþykkt af bæjarstjórn Garðabæjar við síðari umræðu 15. ágúst 2013.
 
Hafðu samband